Suðurlandsdeildin

Suðurlandsdeildin

Ný deild í hestaíþróttum hóf göngu sína 31. janúar 2017, Suðurlandsdeildin Rangárhöllinni – Hellu. Deildin er samstarfsverkefni Rangárhallarinnar og Hestamannafélagsins Geysis. Deildin er liðakeppni þar sem keppa 10-12 lið. Hvert lið á að skipa 2-3 atvinnumönnum og 3 áhugamönnum, tveir atvinnumenn og tveir áhugamenn keppa í hvert sinn. Liðin safna stigum og stendur það lið uppi sem sigurvegari sem flest stig hlýtur eftir mótin fjögur. Liðum er valfrjálst að skrá 2 eða 3 atvinnumenn (lið getur verið skipað 5 eða 6 knöpum) en sú skráning þarf að hafa farið fram fyrir auglýstan frest um liðsskipan hvers liðs fyrir hvert tímabil. Eftir að liðsskipan liðsins hefur verið send stjórn Suðurlandsdeildar verða engar breytingar á liðum leyfðar.

Liðin safna stigum og stendur það lið uppi sem sigurvegari sem flest stig hlýtur eftir mótin fjögur.

Í Suðurlandsdeildinni keppa lið. Einstaklingar innan hvers liðs safna stigum og gefur 1. sæti í hvorum flokk 24 stig. 24. sæti gefur 1.stig. Hvert einasta sæti er því mikilvægt!

Atvinnumenn / Áhugamenn

Miðað er við að atvinnumenn séu allir þeir sem hafa keppt í 1. flokk (oftar en 3svar í sömu grein) eða meistaraflokk á keppnisárinu 2017. Áhugamenn séu allir aðrir. Á hverjum viðburði keppa tveir atvinnumenn og tveir áhugamenn. Áhugamenn mega keppa í flokki atvinnumanna en ekki öfugt. Hver knapi má aðeins vera skráður í eitt lið. Stjórn Suðurlandsdeildarinnar þarf að samþykkja liðsskipan og getur gert athugasemdir sem þarf að bregðast við.

Það verða fimm dómarar. Þrír knapar eru inná í einu. Að forkeppni lokinni verða tvenn A-úrslit. A-úrslit atvinnumanna og A-úrslit áhugamanna nema í parafimi verða ein úrslit. Bæði úrslit gefa jafn mörg stig. Með þessu móti hafa allir jafn mikið vægi innan liðsins. Deildin verður haldin á þriðjudögum nema lokakvöldið, fimmgangur, er á föstudagskvöldi.

Viðburðardagar 2018:

6. febrúar – fjórgangur

20. febrúar

6. mars

20. mars

 

Parafimi

Parafimi er keppnisgrein þar sem reynir á ganghæfileika, samvinnu knapa, fegurð, kraft og glæsileika. Knapar eru í pörum inná, einn atvinnuknapi og einn áhugamaður.

Sýnendur hafa hámark 3,5 mínútur til þess að sýna það besta sem knapar og hestar hafa uppá að bjóða. Þulur lætur knapa vita þegar 30 sekúndur eru eftir af tímanum. Sýnendur eru dæmdir af sex dómurum sem dæma í pörum. Fyrsta dómaraparið dæmir æfingar, annað dæmir gangtegundir og þriðja dæmir fjölhæfni og framkvæmd.

Knapar skulu hneigja sig í upphafi og lok prógramms.

Sýna skal a.m.k. tvær gangtegundir og 3 æfingar. Keppendur skulu sýna eina skylduæfingu og er það opinn sniðgangur á valfrjálsri gangtegund uppá báðar hendur og skal það gilda sem ein af þremur æfingum. Keppendur velja og útvega tónlist sjálfir og getur tónlist sem fellur vel að prógrammi talist til hækkunar á fjölhæfni og framkvæmd.

Valfrjálsar æfingar sem verða til dóms í æfingahluta keppninnar :

1. Opinn sniðgangur (til vinstri og hægri), skylduæfing!
2. Riðið á hringnum (vinstri og hægri)
3. Krossgangur (til vinstri og hægri)
4. Lokaður sniðgangur (til vinstri og hægri)
5. Framfótasnúningur (til vinstri og hægri)
6. Afturfótasnúningur (til vinstri og hægri)
7. Hraðabreytingar
8. Riðin átta
9. Stöðvun – Bakk
10. Taumur gefinn
11. Slöngulínur
12. Skipt yfir allan völlinn (upp á báðar hendur)
13. Ríða fram miðlínu

Æfingar sem hægt er að gera upp á báðar hendur, sambærilegt hér að ofan, þarf að sýna upp á báðar hendur og gildir það þá sem ein æfing.

Þetta eru æfingarnar sem hægt er að velja úr til að fá fullgilda einkunn í æfingahluta keppninnar. Dómarar dæma hverja æfingu fyrir sig og nánari lýsingu er að finna hér að neðan.

Svona verður völlurinn merktur þannig að knöpum sé gert kleift að ríða réttar reiðleiðir.

parafimi-vollur

Dómarapar eitt dæmir æfingar.
Allar æfingar sem knapar sýna í prógrammi eru dæmdar. Minna skal á að pörin fá einkunn fyrir skylduæfinguna ásamt því að hæstu 2 einkunnir fyrir aðrar æfingar í listanum hér að ofan munu gilda. Vegið meðaltal af þessum þremur æfingum skapar einkunn dómarapars fyrir æfingar.
Til að fá einkunn þurfa báðir knapar að sýna sömu skylduæfinguna (opinn sniðgang) en hinar eru valfrjálsar. Þeas knapar þurfa ekki að sýna sömu æfingar í prógramminu, fyrir utan opna sniðganginn. Dómaraparið skiptir sér þannig að annar dómari dæmir æfingar keppandans sem er atvinnuknapinn og hinn dæmir áhugamanninn. Deilir þessum tölum í tvo.

Hér að neðan eru atriði sem höfð eru til hliðsjónar við dóm á æfingum

Í öllum fimiæfingum er lögð áhersla á það að hesturinn framkvæmi þær í réttri líkamsbeitingu, af lipurð og öryggi. Æfingarnar skulu virka þannig að þær bæta hestinn í framhaldinu.

Nr. – Æfing – framkvæmd
1. Skipt yfir allan völlin – Nákvæmar beygjur, hestur beinn og jafn hraði.
2. Riðið á hringnum – Rétt lögun hrings, jafn hraði.
3. Taumur gefinn – Hestur þiggi að lengja háls fram og niður.
4. Slöngulínur – Lögun slöngulína, jafn hraði, mýkt í skiptingum innri hliða.
5. Riðin átta – Lögun áttu, jafn hraði, mýkt í skiptingum innri hliða.
6. Framfótasnúningur – Rétt fótavinna, afturfætur krossa, lenging yfirlínu.
7. Krossgangur – Rétt fótavinna, fram- og afturfætur krossa, lenging yfirlínu.
8. Hraðabreytingar – Mikilvægt er að í hraðaaukningu lengi hesturinn skrefin en auki ekki tíðni skrefa.
9. Stöðvun-bakk – Mýkt í stöðvun og ábendingum, hestur bakki beinn.
10. Afturfótasnúningur – Hestur lækki lend og teygi ytri hlið utan um innri hlið, rétt fótavinna.
11. Lokaður sniðgangur – Hestur gangi á 3 sporaslóðum. Jöfn sveigja í skrokk frá hnakka aftur í tagl.
12. Opinn sniðgangur – Hestur gangi á 3 sporaslóðum. Jöfn sveigja í skrokk frá hnakka aftur í tagl.
13. Ríða fram miðlínu – Hesturinn gangi beinn, góð stjórn á hliðum.

Vegalengd til að fá fullgilda einkunn fyrir æfingu nr. 3, 11 og 12 eru að lágmarki 12 metrar.
Vegalengd til að fá fullgilda einkunn fyrir æfingu nr. 9 eru 5 skref.
Hægt er að fá 0 til 10 fyrir allar æfingar sem eingöngu er hægt að framkvæma á feti, þetta eru æfingar nr. 6, 9, og 10.
Fyrir æfingu nr. 1, 2, 3, 4, 5, 8 og 13 er hæst hægt að fá 6 ef æfingin er sýnd á feti, en 9 ef hún er sýnd á öðrum gangtegundum.
Fyrir æfinga nr. 7, 11 og 12 er hæst hægt að fá 8 fyrir að sýna þær á feti, en 10 fyrir að sýna þær á öðrum gangtegundum.
Góð æfing framkvæmd án stuðnings við vegg gefur hærri einkunn en góð æfing sem framkvæmd er við vegg.

Dómarapar tvö dæmir gangtegundir.
Knapar verða að sýna tvær gangtegundir en þeir þurfa ekki að sýna sömu gangtegundir til að fá fullnaðareinkunn. Dómaraparið skiptir sér þannig að annar dómari dæmir gangtegundir keppandans sem er atvinnuknapinn og hinn dæmir áhugamanninn. Meðaltal af tveimur hæstu tölum fyrir gangtegundir gilda hjá hverjum knapa. Vegið meðaltal þessara fjögurra einkunna verður aðaleinkunn fyrir gangtegundir.
Til að fá fullnaðareinkunn fyrir gangtegundirnar tölt, brokk, stökk og skeið er ígildi einnar langhliðar. Ef sýna skal fet skal sýna það að minnsta kosti 20 metra.

Dómarapar þrjú dæmir framkvæmd og fjölhæfni.
Þetta dómarapar dæmir saman.

Við mat á framkvæmd skal dómaraparið hafa til hliðsjónar eftirfarandi punkta:
Hér er dæmt fas hesta og knapa og heildarframkvæmd sýningar.
Lykilorð: einbeiting, samspil knapa, fas, samræmi, tónlist, fegurð í reið.
Við mat á framkvæmd skal dómari beita refsingu ef sýning helst ekki innan tímaramma.
Dómarar mega gefa plúsa fyrir smekklega búninga og skreytta hesta. Einnig má gefa plúsa fyrir tónlist sem passar prógrammi vel.

Við mat á fjölhæfni skal dómaraparið hafa til hliðsjónar eftirfarandi punkta:
Lykilorð eru fjölbreytni, frumleiki og áræði.
Vel útfærðar nýjungar eða æfingar sem falla ekki beint að skilgreindri hlýðnikeppni eru til tekna í fjölhæfni. Dæmi um þannig æfingar geta verið hneiging, prjón, brokk á staðnum, hestur falli á hné o.s.fr.
Dómaraparið gefur sér einkunn fyrir þessa tvo þætti (framkvæmd og fjölhæfni) og lítur þá til heildarsýningar knapanna tveggja. Deilitalan er tveir. Vegið meðaltal þessara tveggja talna verður heildareinkunn fyrir framkvæmd og fjölhæfni.