Þann 26. júní 1949 hittust 12 menn á veitingahúsinu á Hellu til að ræða möguleika á stofnun hestamannafélags í Rangárvallasýslu. Upphaf þess var að Karl Þorsteinsson bakari á Hellu og stofnfélagi í Hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík árið 1922, hafði hvatt þá Ragnar Jónsson og Þorstein Tyrfingsson, báða búsetta á Hellu, til stofnunar slíks félags. Sjálfur gat hann ekki gerst stofnfélagi þar sem hann var félagi í Hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík. Seinna, eða þann 24. janúar 1973, var Karl kosinn fyrsti heiðursfélagi hestamannafélagsins Geysis, sama daginn og hann gerðist aukafélagi í því.

Á fyrrnefndum undirbúningsfundi var ákveðið að halda stofnfund að hestamannafélagi eftir sláttinn, en jafnframt var rætt um möguleika á að efna til kappreiða þó ekki væri búið að stofna félagið. Til að undirbúa það voru kosnir í nefnd Ragnar Jónsson formaður, Ólafur Jónsson Austvaðsholti, Sigurður Þorsteinson Hellu, Nikulás Gíslason Lambhaga og Óskar Karelsson Hellu.
Voru kappreiðarnar haldnar þann 31. júlí að Strönd og þóttu takast mjög vel, þrátt fyrir lítinn undirbúningstíma og óvana hesta. Kom þangað mikill fjöldi fólks. Stofnfundur Hestamannafélagsins Geysis var svo haldinn 27. nóvember 1949 að Hellu, starfssvæðið voru allir hreppar Rangárvallasýslu utan Austur-Eyjafjallahrepps sem ásamt Mýrdælingum átti aðild að Hestamannafélaginu Sindra. Markmið félagsins var m.a. að stuðla að reiðhestaeign og góðri meðferð almennings í héraðinu á hestum. Þá skyldi einnig efla áhuga og þekkingu fólks á ágæti hesta og hestaíþrótta. Þessu markmiði hugðist félagið ná með því m.a. að eignast góðan skeiðvöll á heppilegum samkomustað í héraðinu og efna þar til kappreiða á hverju ári. Að fræða menn um tamningu hesta og rétta meðferð á þeim. Að stuðla að því eftir því sem hægt væri, að félagsmenn sem ekki höfðu aðstæður til að temja hesta sína sjálfir, gætu komið þeim í tamningu til góðra hestamanna.

 

Á stofnfundinum var félaginu boðið að gerast aðili að stofnun Landssambands hestamanna sem skyldi fara fram í Reykjavík dagana 18. og 19. desember og var því boði tekið.
Formaður hins nýja félags var kosinn Ragnar Jónsson fulltrúi á Hellu, ritari Lárus Ág. Gíslason hreppsstjóri Miðhúsum Hvolhreppi, Magnús Gunnarsson Ártúnum gjaldkeri, og meðstjórnendur: Nikulás Gíslason Lambhaga og Aðalbjörn Jónsson Þórunúpi Hvolhreppi. Endurskoðendur voru kjörnir: Björn Loftsson Hellu og Haraldur Halldórsson Efri-Rauðalæk. Aðalfulltrúi á Landssamband hestamannafélaga var kjörinn Ragnar Jónsson Hellu og varafulltrúi
Ólafur Jónsson Austvaðsholti.

Formenn Geysis hafa verið frá upphafi:
1949-1951 Ragnar Jónsson , Hellu
1951-1954 Guðmundur Erlendsson, Núpi Fljótshlíð
1954-1959 Lárus Ág. Gíslason, Miðhúsum Hvolhreppi
1959-1963 Sigurður Haraldsson Kirkjubæ
1963-1967 Eysteinn Einarsson Brú
1967-1979 Magnús Finnbogason, Lágafelli
1979-1982 Sigurður Haraldsson, Kirkjubæ
1982-1985 Ágúst Ingi Ólafsson, Hvolsvelli
1985-1988 Eggert Pálsson, Kirkjulæk
1988-1995 Kristinn Guðnason, Árbæjarhjáleigu
1995-1997 Haukur Guðni Kristjánsson, Hvolsvelli
1997-2003 Helga Fjóla Guðnadóttir, Skarði
2003-2005 Steinunn Gunnarsdóttir, Króki
2005-2007 Ingvar P. Guðbjörnsson, Hellu
2007-2009 Ómar Diðriksson, Hellu
2009 Ólafur Þórisson, Miðkoti