Nú í haust hafa staðið yfir æfingar í hestafimleikum hjá Hestamannafélaginu Geysi. Hestafimleikarnir fóru af stað af frumkvæði reiðkennarans Jónínu Lilju Pálmadóttur sem sjálf lærði hestafimleika hjá Hestamannafélaginu Þyt á Hvammstanga sem hingað til hefur verið eina Hestamannafélagið sem boðið hefur uppá hestafimleika. Nú eru þau tvö.

Gríðarlegur áhugi var strax á hestafimleikum og hafa um 40 börn stundað hestafimleika vikulega síðustu vikurnar. Hestafimleikar eru töluvert ólíkir öðru sem boðið hefur verið uppá að því leyti að nemendur mæta ekki með eigin hest heldur er hestur á staðnum, það gerir því mun fleirum kleift að stunda hestamennsku.

Nú um helgina kom hópur frá Hestamannafélaginu Þyt en þar hafa verið stundaðir hestafimleikar síðustu 15 ár undir leiðsögn Kathrin Schmitt. Hópurinn æfði í Rangárhöllinni á laugardag. Á Sunnudag héldu Þyts félagar glæsilega Hestafimleikasýningu og í framhaldi æfðu hóparnir saman. Geysir þakkar Þyt fyrir virkilega skemmtilega heimsókn og vonandi koma þau aftur til okkar fljótlega.

Framhald verður á hestafimleikum hjá Geysi í janúar og verður nýtt námskeið auglýst fljótlega.

Fleiri myndir má nálgast á Facebook